Ekki jafn fáránlega skringilegur og flestir virtust halda

Nýjasta skáldsaga Einars Kárasonar, Heimsmeistari, fjallar um bandarískan fyrrum heimsmeistara í skák sem stígur fram á sjónarsviðið, eftir tuttugu ár utan þess, til að tefla við sovéskan fyrrum heimsmeistara í Júgóslavíu. Í framhaldi lendir skáksnillingurinn okkar á flótta undan réttvísinni, því ef hann stígur fæti á grund heimalands síns mun hann hnepptur í fangelsi í fimmtán ár hið minnsta fyrir brot á viðskiptabanni, enda kalda stríðið í hámæli.
Heimsmeistari þessi lét lítið fyrir sér fara næstu ár og það eina sem fréttist af honum voru sögur á stangli um undarlega hegðun af hans hálfu, útigangslegan klæðaburðinn og almenna sérvisku hans, þar til hann var handtekinn í Japan árið 2004 fyrir að nota vegabréf sem bandarísk yfirvöld höfðu fellt úr gildi. 

Eftir fangelsisvist í Japan flutti heimsmeistarinn til Íslands, þar sem hann hafði teflt til sigurs í heimsmeistaramóti í skák 1972. Á Íslandi hefst heimsmeistarinn við allt þar til hann deyr, vinafár og skrítinn og ennþá útlagi.

Skák og mát

Fyrir þá sem eru ekki vel að sér í skáksögu heimsins hjómar þetta eins og plott dregið upp úr huga frjós höfundar, en þeir sem þekkja til kveikja sennilega á þeirri peru að þarna er ekkert skáldað heldur stiklað á stóru í lífshlaupi bandaríska stórmeistarans Bobby Fisher. Nafn Fishers er þó aldrei nefnt í bók Einars, en öll æviatriði virðast þau sömu hjá Bobby og heimsmeistaranum okkar ónafngreinda, sem og örlög hans og aldurtili.

Fremst í bókinni er innskot úr Skák – Alfræði, sem stað- og tímasetur okkur fullkomlega og segir í örfáum orðum alveg nóg um hinn raunverulega Fisher til að tengingin sé skýr. Kápan, eftir Alexöndru Buhl, er ekki bara ósköp falleg heldur fangar hún anda bókarinnar fullkomlega. Á henni er sem skákborð hylji að hálfu leiti andlit skákmeistara og skilur hún eftir nóg til að vekja spurningar en sýna þó allt sem lesandi þarf að sjá. Kápan er þannig gluggi inn í sál bókarinnar rétt eins og bókin er gluggi inn í sál misskilins snillings.

Skáldað í eyðurnar

Einar Kárason hefur lengi verið hylltur sem einn helsti sögumaður Íslendinga og er hann svo sannarlega vel að þeim titli kominn í þessari bók. Hann hleypir lesenda inn í huga heimsmeistarans, sem var umdeildur í lifanda lífi og efaðist fólk jafnvel um geðheilbrigði hans, en í meðförum höfundar verður hann áhugaverður, margbrotinn og lifandi, misskilinn maður sem lesandinn er með í liði. Þegar ég byrjaði að lesa velti ég því fyrir mér hvers vegna maðurinn er aldrei nefndur á nafn, hvað sé skáldað og hvað ekki og svo mætti lengi telja, en eftir að ég datt inn í söguna komst ég að því að það skiptir engu máli. Í stað þess að svara spurningum, setja sig í stellingar predikara eða siðapostula er bókin einfaldlega bara saga. Falleg saga viðkvæms huga sem á erfitt með að finna sér samastað.

Misskilinn meistari

Höfundur reynir ekki að réttlæta gjörðir og lífshlaup heimsmeistarans, en hann býður upp á dýpt og sýnir hvernig hjúpur einmanaleika sökum skorts á hæfni í mannlegum samskiptum ristir djúp sár í sálina. Stíll bókarinnar er einfaldur en flæðandi og orðin sem höfundur notar eru augljóslega vel valin og frásagnargleðin sem einkennir fyrri verk er þarna til staðar.

Bókin er ekki löng, hún er í litlu broti og aðeins tæpar 130 síður og ég vil taka ofan hattinn fyrir bæði höfundi og útgefanda fyrir að reyna ekki að lengja verkið með óþarfa orðum. Hún er akkúrat eins löng og hún á að vera og segir ótrúlega margt, ekki bara í beinu máli heldur einnig í litlu þögnunum á milli orðanna.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...