Árslisti Lestrarklefans fyrir árið 2018

Árið 2018 var fyrsta ár Lestrarklefans og svo heppilega vill til að þetta var með eindæmum gott bókaár. Við lásum margar frábærar bækur, en í tilefni áramótanna tíndum við saman smá lista yfir þær bækur sem okkur finnst standa upp úr í útgáfu ársns.

[hr gap=”30″]

MúmínÁlfarnir eftir Tove Jansson

 

Í dag er hægt að sitja við morgunverðarborðið, íklæddur múmínnáttfötum, og gjóa augunum til skiptis á múmínklukkuna og múmíndagatalið á meðan maður hrærir í kaffinu í múmínbollanum með múmínskeiðinni. Allur þesssi múmínvarningur er svo sætur að erfitt er að standast hann, en mér finnst ég aðeins minna yfirborðskennd núna þegar ég á loksins það sem þetta snýst allt saman um, múmínsögurnar. Hér birtast þær þrjár saman, tvær eru endurútgefnar og ein birtist í fyrsta sinn á íslensku. Fullkomin fyrir alla, börn, unglinga og fullorðna, því hvað er múmínsnáðinn annað en einhvers konar furðulegt fullorðinsbarn? Ég hlakka til að skrifa lengri færslu um þennan ljúfa kaffidrekkandi og pókerspilandi mömmustrák. RH

[hr gap=”30″]

Norrænu goðin eftir Johan Egerkrans

 

Í Norrænu goðunum nýtir Egerkrans sér gamlar sagnir og fróðleik og augljóst er að hann hefur kynnt sér efnið vel og vandlega. Hann setur allt saman fram á mjög aðgengilegan hátt. Hann sameinar fróðleik, afþreyingu og norrænan menningararf í skemmtilegum texta. Sigurður Þór hefur svo þýtt textann af snilld og á svo fallegu máli að það var unun að lesa. Bókin á heima í öllum bókahillum landsins, enda bráðfalleg og skemmtileg fjölskyldubók. KLJ

[hr gap=”30″]

Kláði eftir fríðu Ísberg

 

Kláði sló rækilega í gegn og seldist víst alls staðar upp fyrir jólin. Enda ekki að furða, svona skemmtileg bók í svona fallegri kápu. Oft finnst mér að smásagnaformið sé aðferð höfunda til að ná fram samanþjappaðri angist, og ég verð því alla jafna mjög niðurdregin við að lesa smásagnasöfn. En þó sumar sögurnar í Kláða séu dapurlegar, þá er það ekki hinn ríkjandi tónn. Glettni er kannski rétta orðið til að lýsa bókinni, en sögurnar eru samt mjög ólíkar innbyrðis. Eftir hverja sögu langaði mig til að lesa bara eina í viðbót, og svo var bókin allt í einu búin. RH

[hr gap=”30″]

Eitraða barnið eftir Guðmund S. Brynjólfsson

 

Ég bjó á tímabili á Eyrarbakka, þekki vel til þar og á þar marga vini. Þessi bók hans Guðmundar gerist þar, hægt er að staðsetja atburði bókarinnar nokkuð vel og mörg nöfn sem eru tekin úr sögu staðarins og gera söguna því innihaldsmeiri. Þetta er spennusaga, á köflum gróf, en efnistökin þess eðlis að erfitt væri að skrifa ákveðna atburði með einhverju útflúri. Enda Guðmundur ekki þekktur fyrir að vera með útflúr í sínum skrifum, margir kannast eflaust við pistlana hans á Fréttablaðinu sem oft hafa vakið sterk viðbrögð. Þessi bók er sú fyrsta af þremur og ég bíð spennt eftir framhaldinu. LM

[hr gap=”30″]

UNGFRÚ ÍSLAND Eftir Auði Övu Ólafsdóttur

 

„Persónan Hekla er hinn mikli listamaður; hið mikla skáld. Hún er báturinn sem siglir upp í storminn, með skæra ljóstýru í káetunni og aldrei er henni haggað. Ljóstýran breytist í bjartan loga sem lýsir upp allt og sýnir hinum hvað það er að gefa sig ekki og halda í drauminn, sama þótt á konu halli. Hekla er skáldamóðirin. Hún er fyrirmyndin sem listasagan á að líta upp til og nefna á nafn.“ EAS

[hr gap=”30″]

Sextíu kíló af sólskini EFtir Hallgrím Helgason

 

Ömurð og þrælslund Íslendinga fyrr á tímum er ekki efni sem er auðvelt að koma frá sér á skemmtilegan hátt, en Hallgrímur gerir það að mínu mati á stórskemmtilega vegu sem ekki eingöngu fangar lesandann heldur vekur líka áhuga á liðnum tímum. Sagan er gamansöm, uppfull af orðum, bæði gömlum og nýjum, en fyrst og fremst saga þjóðar á umbrotatímum. Hallgrímur býr til alls konar sögur um íslenska þjóð og útskýringar á því af hverju Íslendingar eru eins og þeir eru. Ég gat hæglega hlegið upphátt að sumu glensinu en stundum hitti það of nærri heimahögum og maður glotti vandræðalega út í annað. KLJ

[hr gap=”30″]

Stormfuglar eftir Einar Kárason

 

Þessi bók er með betri spennusögum sem ég hef lesið og ég gat ekki lagt hana frá mér fyrr en hún var búin. En ég mæli ekki með henni við sjómannskonur, sérstaklega ekki þær sem eru með viðkvæmt hjarta. Þó sagan sé skáldsaga þá er hún byggð á atburðum sem áttu sér stað seint á sjötta áratugnum og gerir söguna afar raunverulega, svo mjög að ég fékk oft hroll og gæsahúð við lesturinn. Persónulýsingar Einars eru eins og svo margir hafa sagt, alveg ótrúlegar.  Persónurnar eiga það til að spretta upp af blaðsíðunum sprelllifandi fyrir hugskotssjónum manns, í útliti og öllu. Æsispennandi lestur sem grípur mann strax á fyrstu blaðsíðu. LM

[hr gap=”30″]

 

Kepler 62 Eftir Timo Parvela, Bjørn Sortland Pasi Pitkänen

 

Mín fyrstu kynni af Kepler62 voru í gegnum elsta soninn. Hann fékk fyrstu bókina í afmælisgjöf frá félaga sínum, bækur eru góð gjöf. Ég hætti að sjá drenginn langtímum saman, því hann sat fastur í bók og las og las og las og þegar ég spurði hann hvað hann væri að lesa stóð ekki á lýsingunum. Hann var gjörsamlega kolfallinn fyrir vísindaskáldsögunum. Síðan þá hefur hann sóst enn meira í að lesa sjálfur, les sig í svefn á kvöldin og les flóknari bækur. Ég þakka Kepler62 fyrir að hafa ýtt honum yfir þröskuldinn yfir í heim bókanna. KLJ

[hr gap=”30″]

Ljónið Eftir Hildi Knútsdóttur

 

Fyrst og fremst mjög spennandi saga, og hélt mér alveg við efnið þó hún sé í lengra lagi. Áhugaverð blanda af raunsærri lýsingu á lífi menntaskólastúlku og yfirnáttúrulegum atburðum, sem gekk alveg upp. Það verður forvitnilegt hvernig höfundur mun vinna úr þessum tveimur þáttum í framhaldsbókunum. RH

[hr gap=”30″]

Hin hliðin eftir Guðjón Ragnar Jónasson

 

Smásagnasafnið Hin hliðin kom skemmtilega á óvart í jólabókaflóðinu. Réttindasaga hommanna er sögð í gamansömum tón og ég átti nokkur hlátursköllin við lestur þessarar bókar.  En þó tónninn sé gamansamur þá kraumar dauðans alvara undirniðri, HIV veiran er allumlykjandi en samt svo falin og réttindabarátta samkynhneigðra á Íslandi er í burðarliðnum, samtökin ´78 að fæðast og mikið í gangi. Ég hafði virkilega gaman af þessari bók og hlakka til að lesa meira eftir þennan höfund. LM

[hr gap=”30″]

Hryggdýr Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur

 

„Ljóðin eru hversdagsleikinn, sem Sigurbjörgu tekst að gera einstakan á sinn eigin hátt. Sum þeirra eru fyndin, svo fyndin að ég skellti upp úr, samanber sagan af aumingja konunni sem fékk blöðrubólgu af því að hún sat of lengi á steini í fjöru til að forðast að heilsa sjósundgörpum, sem hún segir vera svo lengi að synda. Önnur eru hins vegar sorgleg. Það ljóð sem mér fannst hvað magnaðast lýsir missi á svo sannan og einfaldan hátt. Söknuður er oft ekki endalaus grátur. Stundum er hann bara skilningsleysi á því hvernig heimurinn og tíminn getur haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist; eins og þessi manneskja sem var manni svo kær hafi ekki dáið.  Ljóðmælandi færir sig að heitum ofni sem yljar þegar söknuðurinn og kuldinn nístir inn að beini. Heitur ofninn, dauður hlutur, er stundum það sem maður þarf þegar ósanngirni dauðans ríður yfir.“ EAS

[hr gap=”30″]

vegurinn heim lengist með hverjum morgni eftir Fredrik Backman

 

Hver man ekki eftir honum Ove sem hafði það takmark að stytta líf sitt og sameinast konu sinni í annarri veröld? Höfundur bókarinnar um Ove gaf út bók á síðasta ári og eg var ekki lengi að grípa eintak og lesa. Ég varð engan veginn fyrir vonbrigðum og verð að segja að þessi bók „Leiðin heim lengist með hverjum morgni“ kallaði fram alveg ótrúlega miklar tilfinningar, bæði bros og tár í senn. Einstaklega hnitmiðuð bók um erfitt efni og ein af mínum uppáhalds sem kom út árið 2018. LM

[hr gap=”30″]

Allavega eftir Ernu Agnesi Sigurgeirsdóttur

 

Ég er búin að velta bókinni fyrir mér í nokkurn tíma. Er hún hugsanir höfundar skrifaðar niður? Er hún skáldsaga? Sjálfshjálparbók? Og ég komst að því að það skiptir í raun ekki máli. Erna nær að láta frásögnina flæða áreynslulaust og svo skemmtilega að stundum hló ég upphátt. Hún náði að halda mér við efnið fram á nótt, og það er langt síðan ég hef lesið fram á nótt. Hún fékk mig til að gráta, hlæja og gleðjast að lokum yfir lífinu.  KLJ

[hr gap=”30″]

Sæluvíma eftir Lily King

 

Sæluvíma eftir Lily King þaut beint á listann yfir uppáhaldsbækur hjá mér eftir að ég las hana. Bókin er byggð á sannri sögu um fyrsta kvenkyns mannfræðinginn, þótt King hafi tekið sér mikið skáldasleyfi í skrifunum. Allt er áþreifanlegt í sögunni um þremenningana í Indónesíu og sjaldan hef ég verið í eins miklu tilfinningalegu uppnámi og eftir lestur þessarar bókar. Ég reyni að fá alla sem eru í kringum mig til að lesa bókina. KLJ

[hr gap=”30″]

Homo Sapína eftir Niviaq Korneliussen

 

Í einu orði sagt, VÁ! Þessa bók á eg lengi eftir að muna og síðan ég las hana hef ég reynt að koma henni að hjá öllum þeim sem ég þekki og lesa bækur. Mér finnst hreinlega að allir verði að lesa þessa bók. Niviaq var aðeins rúmlega tvítug þegar hún skrifaði þessa þroskuðu sögu og það er svo mikils virði að fá loksins grænlenska sögu skrifaða af grænlendingi en alltof mikið hefur verið um að aðrar þjóðir hafi tekið að sér að skrifa sögur þessa stórkostlega lands. Sagan er hrá, hreinskilin, skemmtilega fléttuð og hvergi hægt að finna misfellur á sögufléttunni sem er sögð af mörgum persónum á mismunandi tímum. Þessi bók gefur innsýn inn í heim ungs fólks á Grænlandi og sá heimur kemur miðaldra konu á Íslandi töluvert á óvart enda umræðan um Grænland oft sögð af öðrum en Grænlendingum sjálfum og ekki með réttu sjónarhorni. LM

[hr gap=”30″]

KAPITÓLA eftir E.D.E.N. Southworth

 

„Saga Kapítólu er margslungin og vindur upp á sig í hverjum kafla. Alltaf þegar lesandi telur sig vera kominn með á hreint hvaða konu Kapítóla hefur að geyma þá snýr hún sér í þrefaldan hring og brýtur enn fleiri múra feðraveldisins. Persónan er ákaflega feminísk og í rauninni ein af þeim fyrstu sem konur gátu litið upp til í þeim efnum. Þess má geta að vinsældir bókarinnar voru slíkar að nafnið Kapítóla varð vinsælt nafn hér á landi sem og víðar.“ EAS

[hr gap=”30″]

 Sálumessa EFtir Gerði Kristnýju

 

„Sagan er skýr og ljóðmálið er sterkt og lýsandi. Undirrituð fullyrðir að enginn sem les þenna bálk Gerðar á eftir að eiga í erfiðleikum með að finna broddinn sem í orðunum býr. Gerður er ef til vill einnig að skila skömminni til samfélags sem dæmdi hana fyrir að segja sögu konu sem var fórnarlamb. Samfélagið var stutt á veg komið í umfjöllun svona mála.

Gerður rekur hér rýting inn í þetta gamla samfélag og ristir það á hol. Hún sker upp herör gegn feluleikjum og segir gerendum til syndanna. Sannleikurinn er bersýnilegur öllum þeim sem vilja sjá hann.“ EAS

[hr gap=”30″]

VIggó Viðutan 2 – Dútl og draumórar eftir Franquin

 

Elsku Viggó, alltaf jafn viðutan og alltaf jafn skemmtilegur. Ég er með ástríðu fyrir teiknimyndasögum sem af mörgum er talið vera erfiðasta bókmenntaformið þar sem plássið til að segja það sem segja þarf er af svo skornum skammti. Textinn þarf því að vera knappur og hnitmiðaður til að koma sögunni til skila. Og Viggó liggur svo sannarlega mikið á hjarta í þessari bók sem og hinum fyrri.  Bækurnar um þennan snilling höfða til allra aldurshópa og því tilvalið fyrir barnafjölskyldur að taka eitt Viggó maraþon allavega svona einu sinni á ári. Og þegar ég ræði við mín börn um sögunar í þessum bókum sjá þau oft allt aðra sögu en ég og leggja allt annað mat á persónur og atburði. Sem svo aftur gefur endalausa möguleika á rökræðum og skemmtilegum umræðum. LM

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...