Hvað á svo að horfa á um jólin? Um hámlestur í stað hámhorfs.

Nú, þegar nálgast frí hjá mörgum yfir hátíðarnar, heyri ég æ fleiri tala um allar þáttaraðirnar sem á að leggjast yfir í fríinu. „Hvað á svo að horfa á um jólin?“ er spurning sem margir fá þessa dagana. Endalausar spekúlasjónir má lesa í grúbbum á Facebook um hina og þessa þætti og þáttaraðir og margir snúa sólarhringnum við vegna hámhorfs en það er eitt af þessum sérkennilegu nýyrðum sem hafa fæðst vegna  mikillar notkunar á streymisveitum alnetsins. Og hvað skyldi svo eiga að horfa á um jólin? Mitt svar er: „helst sem minnst“.  Ég ætla nefnilega að leggjast í annarskonar „hámhorf“ þessi jól, einskonar „hámlestur“. Í stað þáttasería hef ég valið mér bókaflokka og höfunda sem eg ætla að hámlesa.  Hér kemur minn listi og hann er ekkert slor skal ég segja ykkur

 

Fyrst skal nefna bókaflokkinn eftir Anne B. Radge sem hófst á Berlínaröspunum.  Þessar bækur á ég allar og hef lesið fyrir utan þá síðustu sem er Dóttirin. En mig langar að rifja upp kynnin áður en ég les hana. Saga Neshov fjölskyldunnar er í senn fyndin, sorgleg og dramatísk. Höfundurinn nær að skapa ógleymanlegar persónur sem sitja í lesandanum svo hann er farinn að líta á þá sem góða vini sem erfitt er að kveðja. Ég hlakka mikið að til að heimsækja þessa vini mína og fá loksins að reka endahnútinn á lestur þessa bókaflokks.

 

Bækurnar eftir finnska höfundinn Arto Paasilinna eru einnig komnar í bunka á borðið mitt. Dásamlegur höfundur sem ég þreytist seint á að lofsyngja. Ég hef sparað mér þá einu bók sem ég á eftir að lesa eftir Paasilinna, Dýrlegt fjöldasjálfsmorð. En bókin Ár hérans og svo Heimsins besti bær eru í sérstöku uppáhaldi. Húmorinn er hárbeittur og höfundurinn deilir á samfélagsleg málefni sem enn eiga við þó mörg ár séu liðin frá skrifum þessara bóka. Ég ætla að reyna að komast yfir að lesa aftur allar þær bækur sem þýddar hafa verið á íslensku en þær eru sex talsins.

 

Þríleik Hildar Knútsdóttur, Ljónið, Nornin og Skógurinn, er ég afskaplega spennt fyrir og veit að hann á eftir að renna ljúflega. Hildur er tilnefnd til Íslensku barnabókaverðlaunanna fyrir lokabókina í þríleiknum og var einnig tilnefnd til sömu verðlauna fyrir fyrstu bókina. Það er því spennandi að sjá loksins þræðina rakna í annars flóknum fléttum bókanna. Hildur deilir á ríkjandi viðhorf þeirra sem ráða í nútímanum, varðandi málefni sem varða okkur öll, samanber loftlagsmál og innflytjendamál svo eitthvað sé nefnt. Þessar bækur eru að mínu mati afar vönduð skrif og sýnir að Hildur ber virðingu fyrir markhóp bókanna, hún skrifar ekki niður fyrir þann aldur sem bækurnar eru ætlaðar.

 

Þríleikur Guðmundar Brynjólfssonar um börnin þrjú er í mínum bunka. Fyrstu bókina las ég þegar hún var nýútkomin og beið spennt eftir framhaldi. Og nú er ég komin með þær allar á náttborðið. Kár Ketilsson er óbermi sem vekur upp mikla reiði og sjaldan hefur mig langað að nokkur bókapersóna fái makleg málagjöld eins og Kár karlinn. Guðmundur hefur sérstakan stíl, undirliggjandi húmorinn er alltumlykjandi þó svo að hádramatískir atburðir eigi sér stað hjá sögupersónum.

 

Þriðja og síðasta bókin um Brjálínu Hansen kom út núna á þessu ári og ég ætla að lesa þann bókaflokk aftur. Fyrstu bókina las ég á einu kvöldi og gat ekki hætt. Tætti svo í mig framhaldið um leið og það kom út.  Afskaplega velheppnaður barnabókaflokkur, skemmtilega uppsettur og ekki skemma líflegar og frumlegar myndskreytingar Ránar Flygering sem gæða söguna lífi og fjöri.  Þessar bækur höfða ekki síður til okkar fullorðna fólksins en barna.  Mamma Brjálínu er alvarlega veik og þegar við skiljum við Brjálínu í lok annarar bókar er komið að ögurstundu í lífi sögupersónunnar. Mörg börn ættu að geta sett sig í spor hennar og flestir foreldrar hefðu afar gott af því að lesa þessar bækur.

 

 

Ertu viss um að hafa aldrei tíma til að lesa?

Þetta eru ansi margar bækur eða rúmlega 20 talsins. Hvernig kemstu yfir þetta allt myndi nú kannski einhver spyrja. Og hvernig finn ég tímann í þetta? Til viðmiðunnar þá tekur það um 6 klukkustundir að horfa á þáttaröðina Undoing sem er afskaplega vinsæl þegar þetta er skrifað. Það tekur 180 klukkutíma eða sjö og hálfan dag að horfa á Desperate Housewifes sem alltaf eru sívinsælar. Margar svona þáttaraðir renna í gegn hjá landsmönnum um hver jól og áramót. Svo það ætti þá að vera hægt að finna sér tíma til lesturs.

Leyndarmálið mitt felst í tímastjórnun. Og ég tek það fram að ég er fljót að lesa.  Ég tek frá tíma til lesturs á hverjum degi. Þá er ég ekki að meina tímann þar sem ég er háttuð og með bók og sofna svo eftir tvær blaðsíður. Minn tími er oftast milli átta og tíu á kvöldin. Þá sest ég niður og les. Yfirleitt verð ég svo niðursokkin að ég les lengur. Þetta verður afskaplega notalegur ávani. Í amstri dagsins veit ég að um klukkan átta hætti ég öllu brasi, hreiðra um mig inni í stofu með bókina mína og leyfi mér að hverfa inn í heim sögunnar. Auðvitað hentar svona fyrirkomulag ekki öllum. Og sumum finnst bókalestur bara ekkert skemmtilegur. En fyrir þá sem langar að lesa meira en finnst tíminn fljúga frá sér, þá er málið að finna sér tíma sem hentar og merkja hann bókalestri. Halda sig við hann og láta ekki trufla sig. Hámlestur er nefnilega ferlega skemmtilegur þegar vel er komið af stað. En það er lykilatriði að slökkva á öllum símabjöllum sem eiga það til að hringja og boða ný skilaboð eða tölvupóst. Slíkt þarf að láta eiga sig og bókin þarf að eiga hug þinn allan. Hver kannast ekki við að ætla aðeins að kíkja á netið áður en farið er að lesa og svo eru allt í einu liðnir tveir klukkutímar. Skjárinn er tímaþjófur, á hvaða apparati sem hann er og látum ekki slíkan þjóf stela frá okkur upplifun á góðri bók. Því slík upplifun er engu lík.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...