Manst þú hver var uppáhalds bókin þín þegar þú varst lítil/lítill? Manstu hvaða bók fékk þig til að langa að lesa meira? Hefurðu fundið fyrir uppljómun eftir lestur barnabókar? Manstu fyrstu bókina sem þú kláraðir spjaldanna á milli og fylltist stolti? Barnabækur eru nefnilega bækurnar sem snerta okkur fyrir lífstíð og öll lumum við á dýrmætum minningum um einhverja eina bók (eða fimmtán, ef þú ert þannig). Í Sumaráskorun Lestrarklefans hvetjum við ykkur til að lesa eina barnabók í hæfilegri lengd. Það er tilvalið að nýta tækifærið og nappa bókinni sem barnið þitt var að leggja frá sér, eða næla þér í eina af bókasafninu sem þig langar virkilega til að barnið þitt vilji lesa. Það er ekkert eins lestrarhvetjandi og þegar mamma eða pabbi eru að lesa bókina manns. Hérna eru nokkrar bækur sem vert er að hafa í huga við val á barnabók í sumaráskoruninni.

Kennarinn sem hvarf

Kennarinn sem hvarf snertir á mörgum málefnum en er á sama tíma spennandi og forvitnileg. “Snjalltæki og snjalltækjavæðing heimila, vinna foreldra, tímaleysi, ofbeldi og einelti; allt er þetta tekið fyrir í bókinni og rætt á yfirvegaðan hátt í samhengi við söguna.”

PAX-bækurna

Ef þú hefur ekki enn lesið PAX-bækurnar þá er vel hægt að mæla með þeim. Þær eru hraðar og spennandi en fjalla líka um samfélagsleg málefni. Ef þú fílarið Buffy the Vampire Slayer einhvern tíman í gamla daga, þá eru PAX-bækurnar ágætis afþreying fyrir þig. Nú þegar eru komnar út fjöldi bóka úr PAX bókaflokknum á íslensku.

Brjálína Hansen

Sagan af Brjálínu Hansen á skilið að eftir henni sé tekið. “Brjálína er reið. Eiginlega er hún svo miklu meira en reið. Hún er klárlega gjörsamlega brjáluð! Og ætlar aldrei að tala framar við Manninn sem sveik hana og mömmu hennar svo sárt, sprangar um hjólandi með nýrri konu og lætur sem ekkert sé.”

Blíðfinnur

Þegar einhver lætur maka sinn lesa fyrir sig barnabók í sængurlegunni, þá hlýtur téð barnabók að vera fáránlega góð. Lestu Blíðfinn og réttu svo næsta barni bókina. “Blíðfinnur hlýtur að teljast ein undarlegasta og fallegasta bókmenntavera okkar tíma,” sagði Erna um undraveruna Blíðfinn.

Fótboltasagan mikla 

Ef þú hefur ekki lesiði Víti í Vestmannaeyjum, bara horft á þættina eða bíómyndina, þá er ekki of seint að byrja núna. Bækurnar eru nú þegar orðnar fimm og þú getur valið hverja þeirra þú vilt lesa. Bækurnar eru nokkuð sumarlegar og ef þú fílar fótbolta, eða vilt fíla fótbolta… meira að segja ef þú fílar ekki fótbolta, þá er Fótboltasagan mikla eitthvað fyrir þig. 

Bernskubrek Ævars vísindamanns

Á meðal vinsælustu barnabóka síðustu ára eru bækurnar um bernskubrek Ævars vísindamanns. Bækurnar eru bráðfyndnar, hraðar og spennandi. Sjálf hef ég oftar en ekki hlegið upphátt yfir þeim vandræðum og klemmum sem Ævar hinn ungi kemur sér í. 

Njóttu þess að lesa bók sem er hröð, spennandi, fyndin en umfram allt skemmtileg. Finndu barnið í sjálfum/sjálfri þér. Það hafa allir gott af því inn á milli að lesa eitthvað leikandi létt og skemmtilegt. Það eru oft skilaboð til okkar fullorðna fólksins í barnabókunum. Og ef engin af þessum bókum heillar þig, finndu þá gömlu bókina sem þú manst svona vel eftir og endurnýjaðu kynnin.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...