Hundrað bækur á einu ári – ÞAÐ TÓKST!

Ein af ófáum bókahillum heimilisins

Hvar á ég að byrja… Ég á það til að ofmetnast. Árið 2018 setti ég mér markmið að lesa fimmtíu bækur á einu ári og fannst það frekar háleitt markmið þar sem ég var yfirleitt að lesa svona 25-30 bækur á ári fyrir það. Svo kom í ljós að ég fór létt með það og endaði á því að lesa heilar sextíu bækur. Þannig að 1. janúar 2019 tók ég þá ákvörðun að ég ætlaði sko svo sannarlega að ögra mér og lesa HUNDRAÐ BÆKUR árið 2019.

Sem ég svo gerði.

Ég ætla ekki að ljúga og segja að það hafi verið voða auðvelt. Auðvitað var það ekki alltaf dans á rósum. Ég tók tímabil þar sem ég las varla neitt, það furðulegasta við það var að það gerðist í ágúst þegar ég var í sumarfríi, einmitt á þeim tíma sem flestir spæna í gegnum bókastaflann á náttborðinu. Ekki ég. Ég les þegar það er brjálað að gera og þarf að róa mig niður, þarf að leyfa mér að njóta. Ég er oft á þönum allan liðlangan daginn og fæ svo augnablik áður en ég fer að sofa til að lesa. Það er þá sem tekur mest á sjálfsagann, að taka upp bók frekar en að taka upp símann. Yfirleitt er ég búin að hanga á samfélagsmiðlum í töluverðan tíma þegar ég píni mig til að leggja hann frá mér og taka upp bók og sannleikurinn er sá að það lætur mér líða miklu betur. Hugsunarlaust hangs á Facebook eða Instagram gerir nákvæmlega ekki neitt fyrir mig, samt er maður gjörsamlega háður þessu.

En þetta gekk allt upp og einhvernveginn tókst mér að lesa þessar hundrað bækur, tiltölulega stórslysalaust.

Hér eru þær, allar hundrað!

Þetta voru ekki allt skáldsögur, ég las líka ljóðabækur og styttri bækur svo ég myndi ekki gjörsamlega missa vitið. Lesturinn litaðist líka af bókum sem voru settar fyrir í bókmenntafræðiáföngum sem ég tók í vor og haust. Í vor var ég í ljóðasmiðju og áfanga um læknahugvísindi þar sem við lásum skáldsögur og reynslusögur þeirra sem hafa fengið, eða verið aðstandendur þeirra sem fá, banvæna sjúkdóma.

Í haust var ég svo aftur í ljóðasmiðju (hver dýrkar ekki ljóð?!) og í áfanga sem hét því grípandi nafni Forboðnar nautnir. Þar las ég fjölbreytt skáldverk sem fjölluðu á einn eða annan hátt um áðurnefndar nautnir. Ljóðabókalesturinn minn tók svo sannarlega kipp á árinu með þessum tveimur smiðjum og svo vegna mikillar eftirspurnar eftir ljóðabókadómum sem hafa birst á þessari síðu.

Ég ætla nú að deila með ykkur bókum sem stóðu upp úr.

ÍSLENSKAR SKÁLDSÖGUR

Hér eru nokkrar skáldsögur sem mér þótti einstaklega gaman af. Á íslensku voru það Kvika eftir Þóru Hjörleifsdóttur, mögnuð og áhrifamikil, Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur, súrrealísk og ljóðræn, Hunangsveiði eftir Soffíu Bjarnadóttur, sársauka- og lostafull, og Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, hittir beint í mark – bók ársins 2020.

ERLENDAR SKÁLDSÖGUR

Skáldsögur eftir erlenda höfunda sem heilluðu mig voru meðal annars Sæluvíma eftir Lily King, Everything Under eftir Daisy Johnson, Bjargfæri eftir Samanta Schweblin, Kona í hvarfpunkti eftir Nawal El Saadawi og Little Fires Everywhere eftir Celeste Ng.

SMÁSAGNASÖFN

Ég er sérstakur aðdáandi smásagnasafna og las þónokkur síðasta ár, Ástin Texas eftir Guðrúnu Evu Mínevrudóttur mæli ég óendanlega með, svo flutti Brandarar handa byssumönnunum eftir Mazen Marouf mig á allt aðrar slóðir með súrrealískum og sársaukafullum sögum, Children of the New World eftir Alexander Weinstein heillaði mig upp úr skónum með sögum sem minna á Black Mirror þættina og flokkast undir Speculative Fiction. Að lokum var það smásagnasafnið hennar Kristínar Eiríksdóttur frá árinu 2010 sem ég las loksins og var gífurlega ánægð með.

LJÓÐABÆKUR

Eins og áður kom fram las ég ógrynni af ljóðabókum á síðasta ári og vil nefna þessar fjórar bækur sem eru allar virkilega vel skrifaðar og metnaðarfullar: Fræ sem frjóvga myrkrið eftir Evu Rún Snorradóttur, Ég er ekki að rétta upp hönd eftir Svikaskáld, Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur og Kærastinn er rjóður eftir Kristínu Eiríksdóttur.

ÆVISÖGUR

Ég las bara tvær ævisögur sem er mikil aukning á milli ára þar sem ég les ALDREI ævisögur. En þessar tvær voru fantagóðar og sitja enn í mér. Bækurnar eru Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noah og Educated eftir Töru Westover.

BARNA- OG UNGMENNABÆKUR

Að lokum langar mig að minnast á þessar tvær bækur, önnur barnabók og hin ungmennabók. Báðar virkilega vel skrifaðar og áhugaverðar og ættu ekki að vera afmarkaðar við ákveðinn aldurshóp. Verð bara að mæla með þeim: Nornasaga eftir Kristínu Rögnu Gunnardóttur og Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur.

Lestrarmarkmið 2020

Ég hélt að eitthvað stórmerkilegt myndi gerast þegar ég kláraði bók númer hundrað. En það gerðist nákvæmlega ekki neitt. Ég tók bara upp næstu bók…

Á þessu ári setti ég mér markmið að lesa 60 bækur en er ennþá að lesa á sama tempói og á síðasta ári. Ég er þess vegna búin að lesa miklu fleiri bækur í janúar en ég þarf til að halda markmiðinu. Mér líður eins og ég sé ekki tilbúin til að missa niður lestrarhraðann og komast yfir færri bækur í ár… En einhverju verður kona að fórna til að halda geðheilsu. Ég vonandi lesi ekki yfir mig í ár og nýti tímann þá í eitthvað annað uppbyggilegt, eins og að skrifa færslur fyrir Lestrarklefann!

Ég ætla að ljúka þessari langloku með nokkrum ráðum fyrir bókaorma sem hafa sett sér lestrarmarkmið á nýja árinu.

Ráð til þeirra sem vilja tækla metnaðarfullt lestrarmarkmið:

  • Fyrst og fremst: njóttu!
  • Ef bókin er leiðinleg, leggðu hana frá þér og taktu upp aðra. Ekki festast á einni bók í langan tíma.
  • Notaðu Goodreads, ég nota bæði heimasíðuna og appið til að skrá bækurnar sem ég les, finna bækur sem mig langar að lesa og skrá hversu langt ég er komin með hverja bók.
  • Leggðu símann frá þér. Það er miklu meira gefandi að taka upp bók fyrir svefninn en að verða rangeygður yfir skjánum.
  • Lestu fjölbreyttar bækur, víkkaðu þannig sjóndeildarhringinn, taktu upp barnabók, myndasögu, ljóðabók, fantasíu, sci-fi eða bók eftir nóbelsverðlaunahafa. Innihaldið gæti komið þér á óvart!

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....