Sumarlestur Lestrarklefans

Sumarið er tíminn – fyrir endalausan lestur. Það er kominn júní og við í Lestrarklefanum erum farin að huga að löngu sumarkvöldunum, sumarfríinu og sumarbókunum okkar. Hér eru okkar meðmæli inn í sumarið.

Leslisti Rebekku Sifjar

Ég vil byrja á því að minnast á nokkrar bækur sem eru nýkomnar út og eru mér enn ferskar í minni. Ég var að klára Kjörbúðarkonan eftir Sayaka Murata. Bókin er stutt og hentug til að grípa með í ferðatöskuna. Bókin fjallar um Keiko Furukura sem starfar í kjörbúð, það má frekar segja að kjörbúiðin sé líf hennar. Sagan vekur upp spurningar um hlutverk kvenna og karla í samfélaginu, hvað gerir fólkið sem fer á skjön við það sem búist er við af því?

Fyrir þau sem vilja fá smá rómans, kómík og getnaðarlegar lýsingar mæli ég með Getnaður eftir Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur sem sigraði nýverið handritakeppni Forlagsins, Nýjar raddir. Bókin samanstendur af fjórum sögum sem tengjast innbyrðis, lesandinn fær að kynnast fjórum þrítugum manneskjum í lífskreppu í Reykjavík og vandamálum þeirra.

Svo ef þið viljið einlæga, fallega og ljúfsára upplifun mæli ég með ljóðabókinni Mamma þarf að sofa eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur, rithöfund og ljóðskáld. Ljóðabókinni er skipt í þrjá hluta, það að eiga móður, missa móður og verða móðir. Hún hafði djúpstæð áhrif á mig og mér vöknaði um augu við lesturinn.

Assembly eftir Natasha Brown er mögnuð lítil nóvella sem ég greip í bókabúð úti í Kaupmannahöfn án þess að vita neitt um. Hún fjallar um unga framakonu í Bretlandi sem sætir fórdóma vegna kynþáttar síns. Textinn er ljóðrænn og öðruvísi, virkilega sterkur og áhrifamikill. Bækur sem ég stefni svo á að kíkja á í sumar eru Kennarinn sem fuðraði upp eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, The Island of Missing Trees eftir Eilf Shafak (sem kom einmitt á bókmenntahátíð í fyrra!), Heaven eftir Mieko Kawakami og Dagatal eftir Karítas Hrundar Pálsdóttur.

Leslisti Katrínar Lilju

Síðasta árið hef ég svikist undan því að lesa Fjarvera þín er myrkur eftir Jón Kalman. Ákveðið var fyrir rúmu ári að bókin skyldi lesin í bókaklúbbnum mínum, en sökum þykktar bókarinnar hef ég svikist undan en ekki komist upp með það. Bókina skal ég lesa, það er krafa frá öðrum meðlimum bókaklúbbsins. Því stefni ég að því að klára þennan doðrant í sumar.

Í afslöppun í sumarfríinu heima langar mig að lesa heildarverk Tove Jansson um Múmínálfana, allar stórbækurnar sem Forlagið hefur svo ötullega gefið út síðustu árin. Það getur vel verið að ég verði mér úti um myndasögunar líka. Svo verður dagskrá tileinkuð Tove í Hörpu í haust. 

Ég hoppaði hæð mína af kæti þegar ég sá að Auður Haralds sendi frá sér nýja bók fyrir stuttu, Hvað er drottinn að drolla?. Bókina ætla ég að sjálfsögðu að lesa í sumar! Síðustu ár hef ég líka vanið mig á að lesa nýjustu bók Sophie Kinsella. Sú nýjasta sem kom út á íslensku heitir Engin heimilisgyðja. Það verður líklega útilegubókin mín í ár.

Leslisti Jönu

Á sumrin dett ég í skvísubækur sem aldrei fyrr og er ég nú samt sem áður öflug í lestri slíkra bóka allt árið en sumarið kallar á extra skammt. Ég er nýbúin með bókina Sumar í strandhúsinu eftir Söruh Morgan en sú bók kom út nú í maí hjá Bókabeitunni. Síðan eru það þrjár bækur sem ég stefni á að lesa í sumar. Tvær sem falla í rómans/skvísubóka hópinn og ein sem er smá spennó. Sú sem er spennó er ég nýbyrjuð að lesa. Það er The Maid eftir Nitu Prose en ég er að lesa hana á ensku á Kindlinum mínum en hún kom einnig nýlega út hjá Forlaginu í íslenskri þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur og nefnist Þernan á okkar ástkæra og ylhýra. Síðan er það The Switch eftir Beth O’Leary en hún er búin að vera lengi á leslistanum mínum. Beth vakti fyrst athygli mína þegar ég las Meðleigjandann sem hún skrifaði og kom út hjá Forlaginu árið 2019 í íslenskri þýðingu Höllu Sverrisdóttur. The Switch er því búin að vera í smá tíma á leslistanum og svo hef ég heyrt góða hluti um nýjustu bækur hennar tvær, The Road Trip og The No-Show. Ég spái því reyndar að ég lesi þær líka í sumar eða allavega á þessu ári.

Svo er það pjúra rómansinn. Klassík sem ég hef lengi ætlað mér að lesa og ég á til í fallegri útgáfu frá Chiltern Publishing. Það er bókin Sense and Sensibility eftir Jane Austen. Ég hef undanfarin ár verið að vinna mig í gegnum hennar verk og þessi er ein af þeim sem ég á eftir. Ég spái setu úti á palli í sólinni í sumar með kaffi í bolla. Veit að te væri meira viðeigandi en ég er því miður ekki orðin nógu þroskuð í te drykkju.

Sumarleslisti Sjafnar Hauksdóttur

Mamma þarf að sofa: Önnur ljóðabók Díönu Sjafnar Jóhannsdóttur er þrískipt meistaraverk um móðurhlutverkið. Ég grét yfir henni áður en ég átti barn og eftir að ég átti barn. Nostalgían í fyrsta kaflanum er svo dásamlega falleg, sorgin svo sterk að ég fer að gráta í öðrum kafla, þrátt fyrir að mín eigin móðir sé sprelllifandi, og vonin og ástin svo sterk í þeim þriðja að ég svitna bara. Ótrúlega falleg og vel unnin bók sem ég held að muni snerta öll hjörtu.

Flot: Ahh sumar, komdu með þínar léttu sumarbækur eins og Flot eftir Rebekku Sif. Eða nei, bíddu. Ahh sumar komdu með rosalega vel skrifaða áfallasprengju sem slær mann svolítið utanundir. Kápan er allt of vinaleg fyrir svona alvarleg efni. En að öllu gríni slepptu er þetta dásamleg bók sem er skrifuð af færni og natni í snörpum og fallegum stíl þar sem engu er ofaukið og hvert orð fær að njóta sín í framvindu hversdagslegra, en um leið næstum töfraraunsærra, atburða. Mjög góð lesning til að brjóta upp léttmeti sem maður gæti verið að glugga í annars á ströndinni.

Getnaður: Það er vissulega hægt að lesa nákvæmlega hvað mér fannst um Getnað í heilli færslu, en mér finnst þó nauðsynlegt að nefna hann hér líka því hann er svo frábær og skemmtileg bók sem rennur vel og hentar fullkomlega í hvaða ferðalag sem er í sumar. Ég mæli sérstaklega með henni á deiti fyrir einn þar sem lesandi kaupir sér drykk að eigin skapi og situr í sólinni og les og les og sólbrennur á nefinu.

Station 11: Kanadísk dystópía um skæða veiru sem drepur alla? Er það ekki aðeins of snemmt svona rétt eftir Covidmaníuna? Kannski. Bókin er skrifuð 2014 svo hún er sem betur fer ekki Covid-tengd, en ofurflensa þurrkar út meirihluta mannskyns og við fylgjumst með eftirlifendum takast á við næstu 20 árin í kjölfar hennar. Áhugaverðar pælingar um listina og tæknina sem og veruleiki fólks sem býr ekki lengur við læknisþjónustu eða síma- og netsamband og þarf að hafa mun meira fyrir lífinu en áður en flensan skall á. Fallegar lýsingar á mannlegum samskiptum og missi, og ekki er verra að það er búið að gera sjónvarpsseríu byggða á herlegheitunum og hvað er skemmtilegra á mannamótum en að segja: „Já sá þáttur? Nei, ég las bókina,“ með hrokafullu glotti?

Leslisti Sæunnar

Eftir vor sem einkenndist af miklum lestri hef ég aðeins misst dampinn undanfarnar vikur sem skrifast ef til vill á góða veðrið: þá fyllast dagarnir af útiveru og vinahittingum og ég get svo sem ekki kvartað yfir því! En að sumarlestrinum:

Ég er að lesa The Moon Sister, fimmtu bókina í Seven Sisters seríunni eftir Lucinda Riley. Bækurnar eru mjög skemmtilegar og fjölbreyttar en í ljósi þess að þær eru yfir sex hundruð blaðsíður hver hafa þær heldur betur tekið yfir lestrarlíf mitt síðustu vikur, ég á þrjár bækur eftir og hugsa ég klári þær á næstu vikum.

Ég hef þann sið, sem sumir myndu kalla ósið, að klára allar bækur sem ég byrja á … einhvern tímann. Ég byrjaði á dögunum á Þernunni eftir Nitu Prose, bókin er „öðruvísi“ glæpasaga sem segir frá þernunni Molly sem er ekki eins og fólk er flest og er óvænt ásökuð um morð á auðmanninum Charles Black á hótelinu sem hún vinnur á. Ég elska glæpasögur og var afar hrifin af Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant sem bókinni hefur verið líkt við, en get ekki sagt að ég sé hrifin af þessari. Ég ætla mér þó að klára hana því vitaskuld þarf maður að vita hver framdi glæpinn og stefni að því að hraðlesa hana á næstu dögum. Af bókum sem ég ætla mér að klára má einnig nefna hina stórkostlegu Tjernobyl-bænina eftir Svetlönu Aleksíevitsj. Ég byrjaði á henni með nýfætt barn í janúar og komst ekki í að klára hana þá, en það var ekki sökum gæða.

Ég hef aðeins verið að lesa meira af fræðibókum mér til skemmtunar, en ég hef sérstaklega gaman að því að lesa slíkar í sólbaði. Ég fékk The Moment of Lift eftir Melindu French Gates í gjöf fyrir meira en einu afmæli síðan og stefni að því að lesa hana í norðansól í sumar.

Að lokum ber mér skylda til að nefna hina ágætu Jenny Colgan, sem ég overdósaði síðasta sumar. Ég hlýt að finna mér eina nýja eftir hana til að lesa í sumar enda fáir höfundar meira viðeigandi í sumarlestur!

 

Við vonum að þið hafið fundið einhverja bók hér til að setja á leslista sumarsins en þið megið endilega deila myndum af sumarlestrinum á instagram og tagga @lestarklefinn og #sumarlestur. Gleðilegt sumar!

Lestu þetta næst