Vængjalaus er fyrsta skáldsaga Árna Árnasonar sem er ætluð fullorðnum. Árni hefur getið sér gott orð sem barnabókahöfundur en bækurnar Friðbergur Forseti og Háspenna, lífshætta á Spáni vöktu lukku meðal ungra lesenda.

Í Vængjalaus eru uppvaxtarárin og miðaldurskrísan til umfjöllunar. Bókin fylgir Baldri á tveimur æviskeiðum, annars vegar þegar hann er nýskriðinn úr menntaskóla og djammar á Akureyri, og hins vegar á fimmtugsaldri þegar hann er stendur á krossgötum með tvö misheppnuð hjónabönd að baki. Konurnar í lífi Baldurs eru ófáar en lesandinn fær að kynnast barnaskólakærustunni, menntaskólakærustunni, fyrri eiginkonunni, seinni eiginkonunni, samstarfskonunni Elsu og að lokum hinni töfrandi Auði sem setur sterkt mark á líf hans þrátt fyrir að þau hafi aðeins átt eina kvöldstund saman. 

Íslensk ástarsaga

Frásögnin rennur vel, kaflarnir sveiflast á milli nútíðar og fortíðar og eru stuttir þannig að lesandinn á auðvelt með að halda athygli og ég gæti trúað því að einhverjir klári bókina í einni setu. Lýsingarnar úr lífi Baldurs frá árinu 1996 á Akureyri eru lifandi og trúverðugar. Það eru svipaðar uppvaxtarsögur þarna úti, mér verður til dæmis hugsað til Stundarfró eftir Orra Harðarson, þar spilaði tónlist einnig veigamikið hlutverk líkt og í Vængjalaus. Hljómsveitirnar sem lita líf Baldurs eru meðal annars Pink Floyd, Jeff Buckley og auðvitað SSSól sem kom þónokkrum sinnum fyrir.

„Söguþráðurinn og frásagnarform bókarinnar heldur lesandanum við efnið alla bókina þar sem þetta verður jafnvel eins og spennusaga …“

Söguþráðurinn og frásagnarform bókarinnar heldur lesandanum við efnið alla bókina þar sem þetta verður jafnvel eins og spennusaga, lesandann þyrstir í að vita hvað gerðist á milli Baldurs og Auðar, af hverju náðu þau aldrei saman og hvert er Baldur að fljúga þegar hann hittir Elsu á flugvellinum? Það eru mörgum spurningum ósvarað lengi framan af en lesandinn fær að lokum svör við þeim nánast öllum. Einni stórri spurningu er enn ósvarað í lok bókar, þar sem höfundur ákveður að skilja lesandann eftir gjörsamlega á bjargbrúninni.

Allar konurnar í lífi Baldurs

Kvenpersónur bókarinnar eru margar og vildi ég að sumum hefði verið gerð betri skil. Lesandinn fær að vita lítið um fyrrverandi eiginkonur Baldurs og kærustuna Dagnýju, sem leikur þó ágætis aukahlutverk í fortíðarparti bókarinnar. Samstarfskonan Elsa, sem Baldur hittir á flugvellinum á leið út í heim til að freista gæfunnar, er einna helst sú sem er breyskust og raunverulegust. Best tókst þó til með Auði sem Baldur eyðir þessu örlagaríka kvöldi með árið 1996. Hún fær ríka baksögu og lesandinn kynnist henni vel þar sem Baldur verður algjörlega dáleiddur af fegurð hennar og dularfullri fortíð.

Vængjalaus er tilvalinn ljúflestur fyrir fallegu (og líklega frekar vætusömu) haustkvöldin framundan. Sagan flæðir áreynslulaust og vekur upp ljúfsárar tilfinningar um lífið og þær óvæntu stefnur sem það getur tekið. 

Lestu meira

Hann kallar mig örverpið sitt

Hann kallar mig örverpið sitt

Verðlaunahandrit bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar var gefið út sem ljóðabókin Örverpi í lok síðasta árs og er hún fyrsta bók höfundar. Birna Stefánsdóttir, höfundur bókarinnar, er með bakgrunn í stjórnmálafræði og meistarapróf í ritlist frá Háskóla Íslands....

Lestu þetta næst