Gísl eftir Clare Mackintosh

Sigurlín Bjarney Gísladóttir hefur mest af fengist við ljóð, smásögur og prósaljóð í skrifum sínum. Hún hlaut tilnefningar til Maístjörnunnar árið 2017 fyrir ljóðabók sína Tungusól og nokkrir dagar í maí  og árið 2020 fyrir ljóðabókina Undrarýmið. Það heyrir því til tíðinda að hún sendi frá sér skáldsögu. 

Sólrún segir frá eldri konu sem ákveður að ganga út úr þjónustuíbúð sinni og fara á puttanum norður í land, í Mývantssveitina. Hún á margt ósagt áður en maðurinn með ljáinn bankar upp á. 

Þegar ellin færist yfir

Sólrún er um áttrætt þegar hún gengur út úr þjónustuíbúðinni og það er greinilegt að hún er orðin gömul, líkami og minni að bresta. Sigurlín Bjarney færir ellina ekki í rómantíska mynd og er heldur óvægin í lýsingum á óþægindum og vanlíðan sem fylgir hækkandi aldri.

Hið dulræna og ósagða

Bókin ber undirtitilinn „Saga um ferðalag“ og bókin er vissulega eitt langt ferðalag. Bílferð, sem maður færi venjulega á tveimur dögum í mesta lagi, tekur Sólrúnu nokkra daga og á leiðinni kynnist hún vegfarendum. Textinn er sveipaður hinu dulræna og mörkin á milli raunveruleika og hins ímyndaða eru óljós. Eru samferðamenn Sólrúnar lífs eða liðnir? Draugar eða ekki? Röð tilviljana og slembilukku tengir allt fólkið sem Sólrún hittir og spurningar um örlög Sólrúnar og ástand sækja á lesandann. Hvað er satt? Er Sólrún lífs eða liðin? Hver er raunveruleg ástæða fyrir ferðalagi hennar? Mörg burðumst við með ósagða hluti í gegnum lífið, leynarmál sem gætu kollvarpað lífi fjölskyldu okkar.

Fljótandi kynvitund á elliheimili

Sólrún var gift manni og átti með honum börn. Af textanum að dæma hefur hún átt fallegt og ríkulegt líf með honum. En hún er fædd á þeim árum þegar sem kynvitund og samkynhneigð var ekki til umræðu. En lífið er eitt langt þroskaferðalag. Sólrún tekur saman með Birnu á elliheimilinu og kemst að nýjum hlutum um sjálfan sig. Þannig minnir Sigurlín Bjarney okkur á að við höfum sennilega aldrei kynnst okkur sjálfum fullkomlega. Það er nauðsynlegt að að þroskast og læra allt fram á síðustu stundu. Vangavelturnar um kynhneigð Sólrúnar eru nýstárlegar í bók um eldri konu. Það er svo fráfall Birnu sem verður kveikjan að ferðalagi Sólrúnar, sem vill koma því ósagða til síns heima.

Sólrún er falleg bók, örlítið angurvær, stundum óþægileg. Textinn þræðir faglega mörkin milli hins draumkennda og raunsæis. Þannig er líðan Sólrúnar kirfilega bundin við hið raunsæja en ferðalagið allt eins og draumur, hlaðið merkingu og leyndarmálum.

Lestu meira

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...