Einn pistill, þrjár skvísubækur

Ég er alæta á bækur og trúi því að allur lestur sé af hinu góða og ljúflestur er þar engin undantekning. Þó að ég lesi bækur í léttari kantinum allan ársins hring finn ég sérstaklega fyrir áhuga á þeim á þessum tíma árs. Enda koma oft nýir titlar út sem kalla á lesandann. Það er fátt betra til að slaka á í sumarfríi en að liggja í sólbaði og lesa spennandi, aðgengilegar og skemmtilegar bækur. Þetta sumarið hef ég lesið allnokkrar skvísubækur og eru þrjár þeirra teknar fyrir hér.

Grenjað úr hlátri með Sophie Kinsellu

Ég endurles mjög sjaldan bækur, það virðist vera svo lítill tími til að lesa allar bækurnar á leslistanum hvað þá ef ég fer að lesa sumar oftar en einu sinni! Einhverra hluta vegna ná þessi rök þó ekki yfir sjónvarpsseríur sem ég horfi á aftur og aftur og aftur… En allavega, það var líklega nýleg útgáfa íslensku þýðingarinnar á The Undomestic Goddess sem minnti mig á hve fyndin sú bók hafði verið. Þetta varð til þess að ég endurlas bókina á dögunum, en ég var unglingur þegar ég las hana fyrst og því ýmislegt sem ég hafði gleymt.

Bókin segir frá Samönthu Sweeting ungum lögfræðingi á uppleið í London sem gerir stór mistök í vinnunni og gerist í kjölfar þess ráðskona á sveitasetri – fyrir algjöran misskilning. Vandamálið er að hún kann ekki einu sinni að þvo þvott! Bókin er barn síns tíma, hún a að gerast árið 2004 og vinnualkar því með BlackBerry o.s.frv en þetta skemmdi samt ekki fyrir, sagan gæti alveg gerst í dag. Í minningunni var bókin ótrúlega fyndin og gaman að segja frá því að hún var það ennþá við endurlestur. Kinsella er meistari í óþægilega vandræðalegum senum og er Engin heimilisgyðja engin undantekning. Opnunaratriði bókarinnar er drep fyndið og setur tóninn fyrir restina af henni. Ég mæli því með að þeir sem hafi ekki lesið bókina leiðrétti það sem fyrst og að aðrir taki hana aftur upp til að grenja úr hlátri!

Skotland á móti London

Ég hef alltof oft talað um hvað ég hef gaman af Jenny Colgan bókum á þessum miðli og ætla ekki að gera meira úr því hér. Mér finnst eins og margir lesendur annað hvort elski eða þoli ekki höfundinn en ef þú hefur gaman af henni er nýjasta bókin eftir hana í íslenskri þýðingu eitthvað fyrir þig. 500 mílur frá mér til þín segir frá Alyssu Westcott, hjúkrunarfræðingi á bráðadeild í London, sem í kjölfar áfalls í starfi býðst að eiga í vistaskiptum við Cormac, hjúkrunarfræðing í rólega skoska þorpinu Kirrinfief, sem er einmitt sögusvið annarra bóka Colgan. Þau þroskast bæði og læra mikið af viðskiptunum en samskipti þeirra verða sífellt innilegri þegar á líður. Þetta er sjálfstætt framhald af skosku hálandabókum Colgan Litlu bókabúðinni í hálöndunum og Litlu bókabúðinni við vatnið. Ég hafði mjög gaman af þeim og var því fljót að næla mér eintak af þessari. Sögusviðið heillaði mig hafandi búið bæði í Skotlandi og London en ég get tekið undir með þeirri gagnrýni að London sé látin hljóma frekar illa, það er í alvöru bara margt gott við að búa þar! Heilt yfir er þetta fínasta afþreying, þó að ástarsagan sé heldur fyrirsjáanleg. Mér hefur þótt Colgan betri og fannst mega gera meira úr líffæragjafa söguþræðinum, en þetta er fínasta strandar- eða bústaðarbók.

Óhefðbundin þerna

The Maid eftir Nitu Prose hefur slegið í gegn út um allan heim og hefur nýleg íslensk þýðing verið afar vinsæl. Bókin er kannski ekki hefðbundin skvísubók en er léttlestrar glæpasaga (sem er ekki ljót) sem hentar, eins og bækurnar að ofan, vel í fríið. Sagan segir frá Molly Gray, ungri og óhefðbundinnu þernu, sem vinnur á fínu hóteli. Líf hennar er einfalt og fyrirsjáanlegt. Dag einn kemur hún að auðmanninum Charles Black látnum í svítunni sinni og þegar grunur fellur á hana fer allt líf hennar úr skorðum. Bókinni hefur verið líkt við Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant enda eiga aðalpersónurnar það sameiginlegt að vera ekki eins og flestir í samskiptum. Bókin er auðlesin og klárlega öðruvísi glæpasaga en heillaði mig ekki eins mikið og aðra lesendur. Orðfærið í bókinni truflaði mig sem hafði áhrif á lestrarupplifun af plotti sem var annars ágætt. Glæpasagnalesendur sem vilja eitthvað öðruvísi geta þó örugglega skemmt sér við lesturinn!

Ég er með fleiri skvísubækur á kantinum og er þessi listi ekki tæmandi fyrir sumarleslistann en ég mæli með góðri afslöppun með bók í hönd! Merkið endilega Lestrarklefann á samfélagsmiðlum til að sýna okkur hvað þið eruð að lesa!

Kíktu á þessar færslur eða flokka og finndu næstu bók fyrir þig:

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég efni fyrirheit mín til nokkurra mánaða; að skrifa lestrarpistil um reynslu mína af því að lesa heildarverk Juliu Quinn, höfundar Bridgerton. Sá lestur tók um hálft ár og...

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...